Þjónusta og stoðkerfi

 

Þjónusta og stoðkerfi

Stoðþjónustu er að mestu sinnt innan skólans fyrir nemendur er þess þurfa. Á þetta bæði við um nemendur með námsörðugleika og bráðgera nemendur.  

Stoðþjónusta fer ýmist fram innan bekkjarins eða utan hans. Innan bekkjar vinna nemendur t.d. einir eða í smærri hópum en þjónusta utan bekkjar er vinna í formi smánámskeiða til dæmis í félagsfærni, reiðstjórnun, kvíðastjórnun eða sértækum námsstuðningi. 

Foreldrar eru hafðir með í ráðum ef fyrirhugað er að veita nemendum stoðþjónustu og er slíkt ávallt sett fram af ígrundun, fagmennsku og með þarfir nemandans að leiðarljósi. 

Skólinn er í samvinnu við Fræðslusvið Suðurnesjabæjar þar sem Sandgerðisskóli, Gerðaskóli og Stóru-Vogaskóli heyra undir. 

Teymi sérfræðinga innan skólans 

Stoðteymi skólans er skipað deildastjóra stoðþjónustu, námsráðgjafa, þroskaþjálfa, nemendaráðgjafa, umsjónarmann Miklagarðs, verkefnisstjóra Riddaragarðs og verkefnisstjóra Þjóðgarðs auk þess sem sérfræðingar geta kallað aðra starfsmenn skólans til funda og ráðgjafar. Teymið hittist mánaðarlega og vinnur að velferð nemenda innan skólans og sendir erindi áfram til nemendaverndarráðs ef þurfa þykir. Teymið skipuleggur, fer yfir og tryggir þjónustu við nemendur sem þurfa á stoðþjónustu að halda samkvæmt þeirra mati.

Kennsluráðgjöf, námsráðgjöf og nemendaráðgjöf 

Hægt er að óska eftir kennsluráðgjöf, námsráðgjöf og nemendaráðgjöf í tengslum við nám og kennslu. Kennsluráðgjöf er unnin með stjórnendum eða sótt til Fræðsluskrifstofu Reykjaness/Fræðslusviðs Suðurnesjabæjar þar sem kennsluráðgjafi hefur viðveru í skólanum hálfsmánaðarlega. Námráðgjafi er með sérstaka skilgreinda tíma til beinnar ráðgjafar. Foreldrar og kennarar geta sótt um aðkomu hans í gegn um deildarstjóra stoðþjónustu. Nemendaráðgjafi, sem er með sálfræðimenntun, sinnir almennri stoðþjónustu, námskeiðum í félagsfærni og einstaklingsráðgjöf er varðar líðan. Sótt er um aðkomu hans í gegn um deildarstjóra stoðþjónustu. 

Skólasálfræðingur 

Viðvera skólasálfræðings er að jafnaði einn dagur í viku yfir skólaárið. Sálfræðingi Fræðslusviðs er ætlað að tryggja að sálfræðileg þekking nýtist í skólastarfi. Hann sér  um greiningu þroska- og atferlisfrávika og ráðgjöf við skóla og foreldra vegna frávika í þroska eða hegðunarerfiðleika barna í leik- og grunnskólum. Hann sér um sálfræðigreiningar og ráðgjöf vegna barnaverndarmála og veitir fjölskyldu og félagsþjónustu aðstoð vegna slíkra mála sé eftir því óskað.

Talmeinafræðingur 

Talmeinafræðingur starfar hjá Fræðslusviði Suðurnesjabæjar. Hægt er að vísa nemendum sem þess þurfa til meðferðar og/eða greiningar hjá honum í samvinnu við foreldra.

Náms- og starfsráðgjöf 

Náms- og starfsráðgjafi er starfandi, í hlutastarfi við skólann. Hlutverk hans er að standa vörð um velferð allra nemenda, styðja þá og liðsinna í málum sem varða námið, líðan þeirra í skólanum og fleira. Námsráðgjafi er trúnaðarmaður og málsvari nemenda.  

Bæklingar frá ADHD samtöknumum sem starfsfólk skólans vill benda á:

  • Hvað er ADHD_isl  Útskýrir í stuttu máli einkenni ADHD og möguleg úrræði.
  • Hvað er ADHD_polska - CO - TO jest  ADHD Útskýrir í stuttu máli einkenni ADHD og möguleg úrræði.
  • ADHD stelpur Útskýrir hvernig einkenni ADHD birtast hjá stúlkum, en þau eru gjarnan ólík birtingamyndinni hjá drengjum. Þá er einnig fjallað um greiningu og meðferðarúrræði.
  • ADHD börn  - Útskýrir helstu einkenni hjá börnum, greiningu og meðferðarúrræði.
  • ADHD utan skólastofunnar - Upplýsingabæklingur fyrir allt starfsfólk grunnskóla.

Fyrir áhugasama þá er gagnlegt að skoða heimasíðu ADHD samtakanna ADHD.is /heimild: adhd.is