Skólastefna

Hlutverk Sandgerðisskóla er að hafa faglega forystu og ábyrgð á menntun sex til sextán ára barna í Suðurnesjabæ. Honum er ætlað að stýra og fylgja eftir framsækinni stefnumótun í skólamálum sem er í stöðugri þróun og endurskoðun á ári hverju í takt við skólastefnu Sandgerðisbæjar (https://www.sandgerdi.is/skolastefna-sandgerdisbaejar/). 

Sandgerðisskóli vinnur samkvæmt skýrum markmiðum sem skipt hefur verið upp í fimm flokka; þjónusta, innra starf, fjármál, mannauður og samfélag. Þar má finna leiðir til að ná markmiðunum og mælitæki. Stefnt er að því að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, eflt hæfileika sína og séu öryggir í öllu námi og starfi á vegum skólans og að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæð samskipti eru höfð í hávegum. Einnig er markmiðið að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti.

Leiðarljós Sandgerðisskóla, bæði í leik og starfi, eru gildin; vöxtur, virðing, vilji og vinátta.

Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum en skólinn, í samstarfi við heimilin, veitir börnum og unglingum einstaklingsmiðaða menntun til að takast á við líf og starf í skóla án aðgreiningar eins og Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um (2011). Hlutverk skólans eins og segir í skólanámskrá hans er m.a. að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Í henni er kennsluskrá fyrir hvern bekk auk almennra upplýsinga. Þeir nemendur sem víkja frá almennum markmiðum fyrir hvern árgang vinna eftir einstaklingsnámskrá. Einstaklingsnámskrá er unnin í samvinnu stjórnenda, kennara, sérkennara, þroskaþjálfa og foreldra undir öruggri stjórn deildarstjóra stoðþjónustu.