Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga

Uppeldi til ábyrgðarSandgerðisskóli er Uppbyggingarskóli. Frá árinu 2008 hefur verið unnið eftir hugmyndafræði Uppbyggingar. Uppeldi til ábyrgðar – Uppbygging sjálfsaga (e. Restitution) miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skólans við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Öðru fremur er um að ræða aðferðir við að kenna sjálfstjórn og sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Hugmyndafræðin hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála. Hugmyndafræðin byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömm, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og að hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín. 

Stefna Uppeldi til ábyrgðar hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum, spurt er hvernig manneskjur viljum við vera, hver hlutverk okkar eru og hvaða þarfir liggja að baki hegðunar okkar. Hún skapar aðstæður fyrir einstaklinginn til að geta leiðrétt og bætt fyrir mistök sín, gert betur og snúið síðan aftur til hópsins með aukið sjálfstraust. Í uppbyggingu sjálfsaga er lögð áhersla á jákvæð samskipti fremur en reglur, ábyrgð fremur en blinda hlýðni og sjálfsvirðingu fremur en umbun. Treyst er á hæfileikann til sjálfstjórnar og að hver og einn hugsi áður en hann framkvæmir og bregðist rétt við aðstæðum. Kennari og nemendur ákveða í sameiningu hvaða lífsgildi þeir vilja hafa að leiðarljósi í bekknum með gerð bekkjarsáttmála. Þeir einbeita sér síðan að því að finna út hvernig hægt er að hafa grundvallaratriði gildanna í heiðri. Nemendur og starfsfólk koma sér saman um hlutverk beggja með verkefnavinnu sem kölluð er mitt og þitt hlutverk. Þegar kennari getur fækkað afskiptum af nemendum fá þeir aukið frelsi og verða viljugri til að hlusta og taka eftir þegar mikið liggur við í námi og samskiptum. Árlega er dagur jákvæðra samskipta en þá vinna allir nemendur skólans verkefni í anda uppbyggingarstefnunnar sem miða að því að styrkja nemendur sem einstaklinga og sem hóp.  

Hvað er uppeldi til ábyrgðar?  

• Leið til að ýta undir jákvæð samskipti.  

• Miðar að því að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga og læra af mistökum í samskiptum.  

• Byggir á að ná samstöðu um lífsgildi til að hafa að leiðarljósi og fylgja þeim síðan eftir með fáum skýrum reglum.  

• Ýtir undir hæfni til að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum.  

• Gefur innri styrk og aukið sjálfstraust.  

• Eflir nemendur í sjálfstæðri hugsun og að þeir þroski með sér jákvætt gildismat.  

Grunnþarfir 

Grunnþarfirnar fimm eru undirstöðuþáttur í uppbyggingu. Það að þekkja þarfir sínar er grundvöllur þess að maður skilji hegðun sína og geti breytt henni til betri vegar. Öll hegðun stafar af því að við erum að reyna að mæta einhverri af þörfunum. Þær eru missterkar hjá fólki, sem m.a. gerir það að verkum að við erum öll ólík. 

Grunnþarfir

 

 

 

 

 

Í Uppbyggingar teymi skólaárið 2023-2024 sitja:

Ásdís Birna Bjarnadóttir      

Heiða Rafnsdóttir

Sigurveig Sigurðardóttir

Bylgja Baldursdóttir

Nánari upplýsingar um Uppbyggingarstefnuna má lesa á heimasíðu félagsins -  Uppbygging sjálfsaga - Uppeldi til ábyrgðar 

Uppruna stefnunnar má rekja til Kanada og hefur upphafsmaður aðferðarinnar Diane Gossen þróað hana síðustu 20 ár. Aðferðin er þróuð út frá hugmyndum dr. William Glasser um gæðaskólann (Quality School) og sjálfsstjórnarkenningu hans (Control Theory/Choice Theory).