Teymiskennsla

Teymiskennsla

TeymiskennslaSandgerðisskóli hefur stuðst við teymiskennslu sl. ár, í skólanum er kennt samkvæmt aðferðum teymiskennslu (e. team teaching) og eru allir nemendur sama árgangs saman í bekk. Í öllum árgöngum eru tveir umsjónakennarar og eru stuðningsfulltrúar nánast í hverjum árgangi að auki og tilheyra teymi bekkjarins. Kennarateymi kenna nemendum í allri almennri kennslu en auk þeirra koma íþrótta-og sund-, verkgreinaog stoðkennarateymi að námi nemenda.

Í Sandgerðisskóla er samstarf og samábyrgð talin ein af styrkari stoðum skólastarfsins og mikil auðlind sem getur stuðlað að auknum árangri nemenda og kennara. Með teymiskennslu sameina kennarar krafta sína í leið aukinnar þekkingar, bættrar líðan og betri félagslegrar stöðu allra í skólanum. Teymiskennsla gefur ótal möguleika sem ekki eru fyrir hendi þegar kennsluskipulag er með hefðbundnum hætti þar sem hver kennari kennir sínum bekk. Teymiskennsla er hluti af teymisvinnu en nær eingöngu til kennara sem kenna saman einum nemendahópi. Um er að ræða langvarandi og skuldbindandi samvinnu þar sem tveir eða fleiri kennarar bera sameiginlega ábyrgð á námi og kennslu, líðan nemenda, daglegum samskiptum og samstarfi. Teymiskennslan er talin góð leið til að þróa kennsluhætti í átt að einstaklingsmiðuðu námi því hún býður upp á meiri sveigjanleika í kennsluaðferðum sem hjálpar kennurum að bregðast við einstaklingsbundnum þörfum nemanda. Helstu kostir teymiskennslu eru sameiginleg ábyrgð, stuðningur, skipulag og vinnuhagræðing þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín. Teymiskennsla minnkar líkur á einangrun kennara auk þess sem teymismeðlimir græða bæði faglega og hugmyndalega á vinnunni.

Ávinningur fyrir nemendur:

• Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni í verkefnum

• Hægt að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda

• Fleiri kennarar á svæðinu til að aðstoða nemendur

• Aðstæðum sem koma upp á er hægt að sinna strax, nemendur síður skildir eftir einir

• Félags- tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem allir þekkja nemandann

• Nemendur tengjast fleiri kennurum, hafa fleiri til að leita til með ráðleggingar og aðstoð

• Nemendur geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifa jákvæða fyrirmynd í samskiptum fullorðinna.

• Öryggið er fyrir hendi þótt einn kennara vanti

• Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni

• Námsmat sanngjarnara þar sem fleiri koma að því

• Fjölbreyttari félagahópur og getur leitt til meiri samheldni innan nemendahópsins

Ávinningur fyrir kennara:

• Meira samstarf, skemmtilegra í vinnunni, minni einangrun

• Samvinna og stuðningur, ekki síst við erfið samskipti og agamál

• Kennarar fá mikinn stuðning frá hverjum örðum við markmiðsgerð og val aðferða og leiða

• Kennarar geta nýtt mismunandi hæfileika sína eftir því sem við á

• Meiri líkur á fjölbreyttari vinnubrögðum og aðferðum

• Vinnuhagræðing / verkaskipting / álagið dreifist

• Hægt er að bregðast strax við aðstæðum sem koma upp

• Fjölbreyttari sýn á nemendur

• Námsmat samræmdara • Kennarar læra hver af öðrum

• Unnið eftir námsáætlun eins og hægt er þó einn kennara vanti

• Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni

Helstu kennsluteymi í Sandgerðisskóla eru árgangateymi, list- og verkgreinateymi, íþróttakennarateymi, stoðþjónustuteymi, ÍSAT teymi og stjórnendateymi.

Nánar um teymiskennslu má m.a. finna á Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun