Garðarnir

GarðarnirÍ Riddaragarði, Miklagarði, Ásgarði og Þjóðgarði eru námsver fyrir nemendur. Þörfum nemenda er þar mætt með fjölbreyttu námsumhverfi og kennsluháttum, námshvatningu með áherslu á jákvæð samskipti og árangursríka skólagöngu. Nemendur verja mismörgum stundum í úrræðunum á viku og eru alltaf hluti af bekk.

Riddaragarður er sérúrræði fyrir nemendur í 1. - 6. bekk. Markmið garðsins er að veita nemendum með sérþarfir námsumhverfi, námshvatningu og atferlismótandi umhverfi við hæfi. Jafnframt eru nemendur garðsins hvattir til jákvæðra samskipta og leitast er við að gera skólagöngu nemenda árangursríka og ánægjulega. 

Mikligarður er úrræði fyrir nemendur í 7. - 10. bekk. Markmið garðsins er að veita nemendum með sérþarfir námsumhverfi, námshvatningu og atferlismótandi umhverfi við hæfi. Jafnframt eru nemendur garðsins hvattir til jákvæðra samskipta og leitast er við að gera skólagöngu nemenda árangursríka og ánægjulega. 

Ásgarður

Nemendur í 1. - 6. bekk. með einhverfu og skyldar raskanir hafa kost á sérúrræði í námsveri. Með skyldar raskanir er átt við Aspergers heilkenni, Tourette og nemendur með óyrta námsörðugleika. 

Meginmarkmið námsversins er að nemendur verði eins sjálfstæðir og ábyrgir fyrir sínu námi og hegðun eins og mögulegt er. Þar fer fram einstaklingsmiðuð kennsla/þjálfun og stutt er við nám nemenda í almennu skólastarfi. Allir nemendur námsversins eru skráðir í almenna bekki og taka eins mikinn þátt í almennu skólastarfi og kostur er. Allir nemendur í Ásgarði hafa einstaklingsnámskrá eða einstaklingsáætlun en hún er unnin af kennurum og öðru fagfólki í samráði við foreldra þeirra. Almenn námskrá er höfð til hliðsjónar en einnig er hugað að getu, þörfum og áhugamálum nemandans sem og óskum foreldra. 

Þjóðgarður

Skipulag kennslu í íslensku sem öðru tungumáli felur í sér að nemendur eru metnir út frá flokkun aðalnámskrár grunnskóla í byrjendur, lengra komna, lengst komna og brú. Einnig er litið til aldurs nemandans, þroska og þess málsvæðis sem hann kemur frá. Kennslustundafjöldi er einnig ákvarðaður út frá þessum atriðum. Fjöldi kennslustunda er metinn af verkefnisstjóra í íslensku sem öðru tungumáli og umsjónarkennara. Stuðst er við mat verkefnisstjórans, upplýsingar um fyrri skólagöngu nemenda, kunnáttu í íslensku, aldur, stöðumatið „milli mála“ og annað sem talið er skipta máli.