Sandgerðisskóli

Grunnskólinn í Sandgerði

Saga skólans

Sandgerðisskóli stendur við Skólastræti. Skólahúsið, Sund- og íþróttamiðstöð bæjarins eru sambyggð þannig að öll kennsla fer fram undir sama þaki. Skólinn hefur verið starfræktur á þessum stað allt frá árinu 1938. En skólahald í Miðneshreppi má rekja mikið lengra aftur í tímann eða allt aftur til ársins 1884. Þá var kennt á tveimur stöðum, annars vegar á Nýlendu þar sem börn af suðurnesinu söfnuðust saman og hins vegar að Flankastöðum en þar var börnum sem áttu heima í Bæjarskershverfi og norðar, kennt. Á báðum þessum stöðum voru reisuleg húsakynni. Kennslutíminn var fjórir mánuðir, tveir mánuðir á hvorum stað. Á þessum fyrstu árum veittu skólarnir kennslu í Nýjatestamentinu, reikningi og lestri.

Um 1910 risu tveir myndarlegir skólar í hreppnum. Annar við Nýlendu og stendur enn og hinn við Sandgerðistjörnina. Húsið við tjörnina var rifið fyrir nokkuð mörgum árum. Bæði þessi hús hafa verið sérlega glæsileg á sínum tíma, steypt og öll klædd að innan með panel. Skóladagurinn var yfirleitt frá kl. 10 að morgni og til kl. 15 og þótti hæfilegt að taka 15 mínútna hádegiskaffi. Ekki var sérstakt húsnæði til íþróttaiðkanna, þess í stað var kennslustofunni breytt á einni svipann í leikfimisal.

Báðir skólarnir störfuðu til ársins 1933 en þá var syðri skólinn lagður niður og fluttur inn að Sandgerði. Í Tjarnarskólanum var hins vegar kennt til 1937.

Eftir 1933 var ljóst að Tjarnarskólinn gat ekki með góðu móti tekið við öllum nemendunum, sem þá voru liðlega 50. Bygging nýs skóla var samþykkt 1935 eftir allmiklar, gagnkvæmar bréfaskriftir milli skólayfirvalda og hreppsnefndar. Í millitíðinni var skólinn bæði starfræktur í Tjarnarskólanum og Þrastarlundi. Árið 1937 hófst síðan kennsla í hinum nýja skóla sem í daglegu tali er kallaður gamli skóli. Þá var aðeins hluti hans nýttur til kennslu því verkið sóttist seint m.a. vegna þess hve erfiðlega gekk að fá efni til byggingarinnar og innflutningshöft ríktu.

Haustið 1938 var öll starfsemin komin í nýja skólann. Þennan vetur voru 66 börn á aldrinum 7-13 ára í 3 deildum.

Skólinn hefur vaxið jafnt og þétt, er nú í glæsilegu 2800 m2 skólahúsnæði auk rúmlega 1000 m2 íþróttamiðstöðvar. Nemendur eru nú 317 í 10 bekkjardeildum og eru 70 starfsmenn starfandi við skólann, ýmist í fullu starfi, hlutastarfi eða við stundakennslu. 38 kennarar og tveir þroskaþjálfar eru starfandi við skólann þ.á.m. eru stjórnendur og náms- og starfsráðgjafi. 25 aðrir starfsmenn eru starfandi við skólann, skrifstofustjóri, umsjónarmaður, verkefnisstjóri tölvumála, skólaliðar og stuðningsfulltrúar ýmist í heilu starfi eða hlutastarfi. Við skólann er einnig starfrækt Skólasel þar sem nemendur eru í gæslu að skóladegi loknum. Á Skólaseli starfa að jafnaði fjórir starfsmenn. Skýið er eftirskólaúrræði fyrir nemendur með sérþarfir í 5. – 10. bekk Sandgerðisskóla, Gerðaskóla og Stóru-Vogaskóla. Starfsemin er til húsa í húsnæði félagsmiðstöðvarinnar Skýjaborgar og starfa þar fimm starfsmenn.
Bókasafn Suðurnesjabæjar er rekið í skólahúsnæðinu sem og Skólabókasafn Sandgerðisskóla skólastjóri veitir skólabókasafninu forstöðu en það er opið nemendum, starfsfólki og almenningi á skólatíma. Innangengt er úr skóla í Tónlistarskóla Sandgerðis, bókasafn eins og áður sagði, Skólasel sem og í íþróttamiðstöð og sundlaug sem nemendur hafa aðgang að. Samstarf er víðtækt við Tónlistarskólann og Leikskólann Sólborg í Sandgerðishluta Suðurnesjabæjar. Auk þess sem barnkór er rekinn í samvinnu við kirkjuna og tónlistarskólann.

Stjórnendur

Bylgja Baldursdóttir, skólastjóri

Valdís Hildur Fransdóttir, aðstoðarskólastjóri

Fríða Stefánsdóttir, deildastjóri 

Margrét Bjarnadóttir, deildastjóri stoðþjónustu 

Sigrún Sigurðardóttir, staðgengill deildarstjóri stoðþjónustu skólaárið 2023-2024

Að hefja nám í grunnskóla