Villi vísindamaður og Linda teiknari heimsóttu 3. og 4. bekk

Villi vísindamaður og Linda teiknari heimsóttu 3. og 4. bekk  og fræddu nemendur um hvernig á að skrifa og myndskreyta sögur. Óhætt er að segja að þau hafi slegið algjörlega í gegn! Vilhelm Anton Jónsson er söngvari og tónlistarmaður, kvikmyndaleikari og þáttastjórnandi í útvarpi og sjónvarpi og þar að auki barnabókahöfundur. Árið 2013 sendi hann frá sér fyrstu Vísindabók Villa og nú sex árum síðar eru hinar vinsælu vísindabækur orðnar fimm talsins, þ.á m. Vísindabók Villa: truflaðar tilraunir og Vísindabók Villa: geimurinn og geimferðir sem hann skrifaði með Sævari Helga Bragasyni. Linda Ólafsdóttir er teiknari og barnabókahöfundur og hefur myndskreytt fjölda bóka, m.a. Íslandsbók barnanna, Móa hrekkjusvín, Dúkku og sitt eigið höfundaverk, LEIKA?. Fyrir verk sín hefur Linda hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og má þar nefna tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Fyrir Íslandsbók barnanna fékk Linda heiðurssæti á lista IBBY 2018.