Útskrift og skólaslit Sandgerðisskóla

Útskriftarárgangur 2005
Útskriftarárgangur 2005

Skólaslit Sandgerðisskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 4. júní s.l. Skólaslitin voru tvískipt að þessu sinni, fyrst fyrir 1. – 7. bekk og svo útskriftarhátíð 10. bekkinga og skólaslit eldri nemenda. Kór skólans hóf dagskránna undir stjórn Sigurbjargar Hjálmarsdóttur, kórstjóra.

Skólaárið einkenndist af þrautseigju nemenda í síbreytilegu skólaumhverfi á tímum sem þessum. Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri fór yfir skólaárið í ræðu sinni, hvað hefði áunnist og þann metnað og dugnað sem nemendur skólans sýndu í ár. Þá sagði hún einnig: “Við erum svo heppin með það hér í skólanum að við erum ótrúlega fjölbreyttur hópur, höfum allskonar styrkleika og mismunandi áhugamál. Við erum líka meðvituð um það, að við erum ólík, að við þurfum ólíka hluti og bregðumst mismunandi við ef eitthvað bjátar á já eða gleður okkur. Munum að það sem okkur finnst er ekki eina leiðin og okkar aðferð er ekki sú eina rétta. Fögnum fjölbreytileikanum og bjóðum öðrum í hópinn okkar, hver veit nema við lærum af því og verðum ríkari af reynslu og fordómaleysi já og vinum. Fordómar eru nefnilega oftast þekkingarleysi eða hræðsla við það sem við þekkjum ekki, sigrumst á því og gefum öðrum séns, alltaf. Því eins og þið breytast aðrir og þroskast, eignast ný áhugamál og öðlast nýja styrkleika – ég bið ykkur lengst allra orða að vera ekki með kúk í bandi.“  Þá þakkaði hún skólasamfélaginu öllu gott samstarf síðustu fimm árin þar sem óvíst er hún snúi aftur til starfa í haust.

Við útskriftarhátíð 10. bekkinga töluðu þau Oliver Þór, Wiktoria Olowiecka og Lovísa Ósk Ólafsdóttir fyrir hönd 10. bekkinga, Örn Ævar Hjartarson umsjónarkennari þeirra ávarpaði nemendur og Daníel Örn Atanaia, nemandi í 10. bekk spilaði á gítar við athöfnina. Að lokinni athöfn var 10. bekkingum, foreldrum þeirra og starfsfólki skólans boðið til kaffisamsæti í boði foreldra 10. bekkinga.