Skólaslit og útskrift 10. bekkjar 2022-2023

Árgangur 2007
Árgangur 2007

Skólaslit Sandgerðisskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 5. júní s.l.. Skólaslitin voru tvískipt að þessu sinni, 1. - 7. bekkur og því næst 8. - 9. bekkur og útskrift 10. bekkjar. Á skólaslitum yngri fluttu nemendur 1. - 3. bekk tónlistaratriði undir stjórn Daníels Hjálmtýssonar tónmenntakennara auk þess flutti kór Sandgerðisskóla tvö lög undir Stjórn Steinunnar Bjargar Ólafsdóttur kórstjóra. Á útskrift og skólaslitum eldri nemenda spilaði Theodór Elmar Jónatansson á píanó.

Skólaárið einkenndist af fjölbreyttum verkefnum og áskorunum, Bylgja Baldursdóttir skólastjóri fór yfir skólaárið í ræðu sinni, hún sagði að skólaárið hafi heilt yfir gengið vel og án takmarkanna. Að sjaldan hafi fleiri nemendur stundað nám við skólann en á þessu skólaári auk þeirra 315 nemenda sem stunduðu nám í 1. - 10. bekk voru á rúmlega fjörutíu nemendur Leikskólans Sólborgar sem fengu inni í skólanum í vetur í húsnæðisvanda þeirra. Þröngt mega sáttir sitja.

Hún sagði frá því að auk hefðbundinnar kennslu hafi nemendur m.a. tekið þátt í litahlaupi, friðarhlaupi, útikennslu og vettvangsferðum. Á meðan sumir bekkir létu sér nægja að fara í vettvangsferðir í grenndarsamfélaginu t.d. Miðhús, Ný Fisk, Kjörbúðina, Þekkingarsetrið, Byggðasafnið eða Leikskólann Sólborg þá fóru nemendur 9. bekkjar á framandi slóðir til Slóvakíu í gegnum Erasmus+ verkefni og þeir dvöldu þar ásamt kennurum í viku og kynntust nemendum og menningu Slóvakíu.

Nemendur skólans tóku þátt í ýmsum keppnum og verkefnum á skólaárinu, First LEGO League keppninni í Háskólabíó, Stóru upplestrarkeppninni í Gerðarskóla. Hreystikeppninni í Laugardalshöll, Taflmóti í Stapaskóla, Blakmóti í Reykjaneshöll svo eitthvað sé nefnt. Nemendur á yngsta stigi tóku aftur þátt í verkefninu Float your boat, nemendur í 5. bekk tók þátt í verkefni á vegum Byggðasafnsins sem fól í sér að útfæra þjóðsögur af svæðinu í listaverk sem voru til sýnis í þar í tengslum við Hrekkjavöku. Nemendur á unglingastigi tóku þátt í vinnustofu á vegum listahópsins Ferskir vindar en verkefnið bar nafnið Fimm vitar og var til sýnis á Byggðasafni Suðurnesjabæjar í nokkrar vikur. Hún ræddi einnig um mikilvægi listgreina og um þá samvinnu og gleði sem einkenndi vinnu nemenda og starfsmanna í þemaviku og árshátíð. Skólastarf væri eins og keðja þar sem hver og einn hlekkur væri jafn mikilvægur sama hvort það væru nemendur, starfsfólk, aðstandendur og eða fólkið í grenndarsamfélaginu. „Það stefna allir í sömu átt þ.e. að nemendur nái sem bestum árangri í lífi og starfi“.

Hún talaði beint til nemenda þegar hún sagði: „Hafið ávallt hugfast að vöxtur, vilji, virðing og vinátta helst í hendur en krefst ákvörðunar ykkar um það hvernig þið nýtið ykkur það á hverjum degi. Að allir hafi náð framförum og aukið við félags þroska , hver á sinn hátt og þið hafið aukið við félags þroska ykkar og síðast en ekki síst lært enn betur að vera besta útgáfan af ykkur sjálfum“.

Foreldrafélagið gaf einum nemanda í hverjum árgangi viðurkenningu fyrir jákvæða leiðtogahæfni, Sorpeyðingarstöðin Kalka gaf bókarverðlaun fyrir góðan árangur í náttúrufræði á miðstigi. Þekkingarsetur Suðurnesja gaf verðlaun fyrir hæstu einkunn í náttúrufræði í 10. bekk. Fjöldinn allur af viðurkenningum voru veittar fyrir árangur í bóklegum greinum, verkgreinum, íþróttum og fyrir þátttöku í nemendaráði, skólaráði, Skólahreysti og First LEGO League.

Við útskrift 10. bekkjar ávörpuðu Kolbrún Ósk Ásgeirsdóttir og Sigurður Hilmar Guðjónsson umsjónakennarar og Guðlaug Stefanía Gunnarsdóttir stuðningsfulltrúi nemendur og fóru yfir farin veg. Fyrir hönd útskriftarárgangsins töluðu þær Amelia Zarebska, Elísabet Kristín Ásbjörnsdóttir, Júlíana Þurý Sól Andrésdóttir  og Salóme Kristín Róbertsdóttir og fóru yfir skemmtileg atvik og sögur af skólagöngu árgangsins. Margréti Böðvarsdóttur lestrarömmu skólans var færður þakklætisvottur fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu nemenda.

Þá þakkaði hún foreldrafélagi skólans fyrir gott starf og einnig þeim fjölmörgu fyrirtækjum og stofnunum sem tóku á móti nemendum skólans fyrir góðar móttökur og samstarf.

Að lokinni athöfn buðu foreldrar 10. bekkjar starfsfólki og nemendum til kaffisamsætis. 

Smellið hér til að sjá myndir frá athöfninni.

Við þökkum nemendum og foreldrum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Óskum ykkur ánægjulegs sumars og hlökkum til samstarfsins á komandi hausti