Skólaslit og útskrift 10. bekkjar

Skólaslit Sandgerðisskóla voru frábrugðin hefðbundnum skólaslitum þetta árið vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Nemendur í 1. – 9. bekk fengu vitnisburð sinn frá umsjónarkennurum í heimastofu og hlustuðu á skólakórinn og ávarp frá skólastjóra rafrænt.  Hólmfríður Árnadóttir skólastjóri fór yfir skólaárið í ræðu sinni, skólaár sem einkenndist af samstöðu, dugnaði, þrautseigju, umhyggju og sjálfstæðum vinnubrögðum. Hólmfríður þakkaði sérstaklega nemendum, foreldrum og samstarfsfólki fyrir jákvæðni, elju, nýsköpun og samvinnu.

Við útskrift 10. bekkjar beindi Hólmfríður orðum sínum til nemenda og sagði meðal annars: “Þetta skólaár hefur verið óvenjulegt, eiginlega stórfurðulegt. Kórónuveiran, brjálað veður, snjóflóð og lokanir á vegum, rafmagnsleysi og allskonar erfiðleikar og hindranir sem margir hafa og eru að lenda í. Ekkert Júróvisíon, skólastarfinu kúvent og nú öðruvísi skólaslit.  

En við vorum og erum langt í frá að gefast upp. Enda þjóðin jafnan kennd við víkinga, konur og karla sem settust að i hrjóstrugu landi á hjara veraldar og gerðu það byggilegt. Það sem við gerum er að breyta skipulagi, finna nýjar leiðir og aðferðir. Og saman höldum við áfram og gerum alltaf okkar besta! Hindranir eru nefnilega ekki til að maður gefist upp, heldur eru þær til þess að við stöldrum við, hugsum, öndum og finnum aðra, nýja leið yfir eða fram hjá hindruninni. Mögulega þurfum við fleiri en eina tilraun en það er jú allt í lagi, því þið munið að mistök eru til að læra af þeim, að ef eitthvað gengur ekki upp er alltaf til önnur leið eða annað markmið að stefna að. 

Í ár erum við að útskrifa afar sterkan árgang. Samheldinn nemendahóp sem inniheldur afburða íþróttafólk, námsmenn, listafólk og síðast en ekki síst jákvæða leiðtoga og góðar manneskjur. Stór hluti hópsins var í áföngum í framhaldsskóla í vetur og það mun auðvelda þeim að stíga næstu skref. En fyrst og fremst viljum við hér í Sandgerðisskóla útskrifa heilsteyptar manneskjur sem þekkja sjálfan sig og fara héðan með reynslu og þekkingu sem nýtist þeim í lífinu.  Að vera sáttur í eigin skinni, sáttur við eigin ákvarðanir og standa með sjálfum sér. Það er kúl að vera með hjálm á hjóli, það er kúl að segja nei ef við erum óörugg eða virkilega viljum ekki gera það sem við erum beðin um eða boðið vegna þess að við vitum að það er ekki gott fyrir okkur. Heimilisverk eru kúl, að knúsa mömmu og pabba er kúl, að gefa sér tíma til að gera eitthvað með yngri systkinum er kúl, að leyfa ömmu eða afa að kenna okkur að prjóna eða tefla er kúl. Þetta allt situr nefnilega eftir og þegar þið verðið 47 ára eins og ég verða þetta minningar sem þið eruð hvað mest þakklát fyrir. Því lofa ég ykkur. Ef það er eitt ráð sem ég get gefið ykkur þá er það þetta, verið góðar manneskjur. Góðar manneskjur sem hugsa áður en þær framkvæma og taka ákvarðanir út frá því hvað er gott fyrir ykkur og ykkar líðan. Heimurinn þarf á góðu fólki að halda, fólki eins og ykkur.“ 

Á útskriftarhátíðinni töluðu þau Kara Petra Aradóttir, Sigrún Eva Ægisdóttir og Valur Þór Magnússon fyrir hönd 10. bekkinga og fóru yfir farinn veg. Vilborg Rós Eckard og Kolbrún Ósk Ásgeirsdóttir umsjónarkennarar þeirra ávörpuðu síðan nemendur. Fjöldinn allur af viðurkenningum og verðlaunum voru veitt fyrir árangur í bóklegum greinum, vergreinum, íþróttum og fyrir þátttöku í nemendaráði, skólaráði, Skólhreysti og síðast en ekki síst fyrir leiðtogahæfni. Þá var starfsfólki sem er að ljúka sinni starfsævi færður þakklætisvottur. Í ár voru það Friðbjörg Ósk Arnbergsdóttir sem hefur unnið í 23 ár í leikskólanum og á Skólaseli og Þórunn Björk Tryggvadóttir sem hefur kennt í skólanum í næstum 40 ár. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir sitt framlag til uppeldis og menntunar barna í Sandgerði. 

Þá var Helgu Karlsdóttur og Margréti Böðvarsdóttur færðar þakkir fyrir að vera frábærar lestrarömmur.

Að lokinni athöfn var 10. bekkingum, foreldrum þeirra og starfsfólki skólans boðið til kaffisamsæti í boði foreldra 10. bekkinga.