Nemendaráð með tvo fulltrúa á leiðtogafundi ungs fólks á Norðurlöndum í Hörpu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda ásamt …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda ásamt fulltrúum Sandgerðisskóla

Dagana 24. og 25. nóvember fór fram leiðtogafundur ungs fólks í Hörpu á vegum Samfés.  Viðburðurinn er hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og munu börn og ungmenni á aldrinum 13 - 25 ára frá öllum Norðurlöndunum taka þátt. Ásdís Elma Ágústsdóttir og Karma Ólafs, formaður og varaformaður nemendaráðsins fóru fyrir hönd Sandgerðisskóla og stóðu sig vel. 

 Leiðtogafundur ungs fólks er öflugur samráðs- og samtalsvettvangur barna og ungmenna um málefni er varðar þau sjálf.  Meginmarkmið leiðtogafundar er að gefa börnum og ungmennum tækifæri til þess að hittast, ræða saman og mynda aðgerðir í þeirra málefnum sem afhentar verða Norrænu ráðherranefndinni ásamt ráðamönnum í hverju landi fyrir sig í lok fundarins. Við teljum mjög mikilvægt að ráðamenn og aðrir hagsmunaaðilar hlusti og taki mið af röddum ungmenna þegar ákvarðanir í málefnum þeirra eru teknar um komandi framtíð.  Því viljum við á þessum fundi leggja megináherslu á að vinna út frá spurningunni hvernig börn og ungmenni vilja að ráðamenn vinni að þeirra málefnum. Út frá þeirri umræðu verða dregnar saman aðgerðir sem þátttakendur telja brýnust til þess að geta mætt því markmiði sem ráðherranefndin setur sér, í að gera Norðurlöndin að besta stað fyrir ungt fólk að alast upp og búa á.