Farsæld barna

Þann 1. janúar 2022 tók í gildi ný löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu barna eða svokölluð farsældarlög. Meginmarkmið laganna er að veita snemmtæka íhlutun og að allir sem að barninu koma tali saman. Er sveitarfélögum ætlað þrjú til fimm ár til að innleiða slíkt fyrirkomulag. Þeir sem bera ábyrgð samkvæmt lögum þessum skulu:

Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.

Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.

Hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Stigskipting þjónustu

Í lögunum er kveðið á um stigskiptingu á þjónustu. Þannig er gert ráð fyrir að öll þjónusta í þágu farsældar barna sé veitt á þremur þjónustustigum. Fyrsta stigið er aðgengileg öllum börnum og foreldrum en um er að ræða einstaklingsbundinn snemmtækann stuðning. Þó hefð sé fyrir því hjá Suðurnesjabæ og Vogum að veita snemmtækann stuðning jafnt í leik, grunn- og framhaldsskóla sem og hjá Fjölskyldusviði þá er alltaf hægt að gera betur svo að öll börn í sveitafélaginu geti notið sín á eigin forsendum og fái tækifæri til að eiga góða æsku.

Fyrsta stigið er nýnæmi í lögum og verður mesta kerfisbreytingin þar (úrræði í skóla og ungbarnavernd). Á öðru stigi er markvissari einstaklingsþjónusta (liðveisla og uppeldisleg ráðgjöf) og á þriðja stigi er þjónustan orðin mun sérhæfðari (barnaverndarvinnsla). Innleiðing laganna tekur um 3-5 ár og ef hún heppnast vel þá munum við eftir einhver ár sjá fækkun í alvarlegri málum er varða börn.  

Núna er hægt að sækja um samþætta þjónustu í þágu barna í Sandgerðisskóla. Til þess að sækja um samþætta þjónustu er mikilvægt að hafa samband við tengilið farsældar og leggja fram beiðni um samþættingu. Þegar tengiliður hefur fengið þessa beiðni frá foreldum og í sumum tilvikum barni þá getur hann hafið upplýsingavinnu og lagt mat á hvort þörf sé á samþættingu eða ekki. Einnig er nauðsynlegt að veita tengilið leyfi til þess að vinna með persónuupplýsingar ef það þarf að hafa samband við aðra fagaðila eða þjónustuveitendur sem koma að málum barnsins. Tengiliður sér ekki einungis um að samþætta þjónustu heldur veitir hann foreldrum og nemendum ráðgjöf varðandi þjónustu og úrræði sem hægt er að sækja í Sandgerðisskóla og Suðurnesjabæ. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um farsældarlögin og hvernig maður sækir samþætta þjónustu hér

Tengiliður Sandgerðisskóla er Astrid Elísabet Þorgrímsdóttir, nemendaráðgjafi. Hægt er að sækja um samþætta þjónustu með því að hafa samband í gegnum tölvupóst á astrid@sandgerdisskoli.is eða koma í opna viðtalstíma á mánudögum kl 9:00-11:00 í Sandgerðisskóla.