Dagur mannréttinda barna

Á degi mannréttinda barna buðu nemendur í 7. bekk foreldrum og forráðamönnum á kynningu og verksýningu.

Síðustu vikur hafa nemendur fengið fræðslu um mannréttindi og heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna. Farið var yfir ólíkan bakgrunn okkar allra, jafnrétti í heiminum og kynhlutverk og kynjajafnrétti.

Heimsmarkmiðin voru skoðuð hvert fyrir sig og nemendur völdu þau markmið sem þeim þóttu mikilvægust. Í framhaldi var þeim raðað í heims-stjórnmálaflokka. Hver hópur valdi 2-3 markmið og urðu þau að gefa góðar ástæður fyrir því að þau hafi verið valin fram yfir önnur. Einnig varð flokkurinn að gera grein fyrir því hvernig þau ætluðu ná þessum markmiðum. Að lokum fundu þau slagorð, merki og nafn á flokkinn sinn og bjuggu svo til auglýsingu. 

Í lok lotunnar buðu nemendur foreldrum á flokkskynningar í skólanum. Einnig sýndu þau goðafræði verkefni sem þau hafa unnið að út frá bókinni Örlög guðanna. Hver nemandi valdi sér eitt goð, föndraði persónuna og skrifaði stuttan texta. Persónunum var svo raðað í kringum Ask Yggdrasil. 

Eins og sjá má á myndunum var frábær mæting og gleðin í fyrirrúmi. Að loknum kynningum og verksýningu gæddu nemendur og foreldrar sér á veitingum saman. Við þökkum foreldrum kærlega fyrir þeirra framlag á veisluborðið.