Betri bær

Á mánudaginn fengu nemendur 9. bekkjar heimsókn frá bæjarstjóra og stjórnendateymi Suðurnesjabæjar. Ástæða fyrir heimsókninni var að nemendur höfðu í náttúrufræðitímum unnið verkefni til þess að gera bæinn enn betri. Nemendur ígrunduðu mikið og áttu góðar umræður í upphaf verkefnisins. Markmið hópanna var að athuga hvað mætti betur fara í bæjarfélaginu, hvað mætti laga og einnig hvað vantaði til að gera bæinn enn betri.

Hóparnir voru fjórir og fengu hugmyndir til að bera undir bæjarstjórn:

-          frisbígolf 

-          heitapottar við ströndina

-          betri sjoppu

-          krossarabraut.

Eftir kynningu áttu nemendur gott spjall við bæjarstjóra, sviðstjóra umhverfis- og skipulagssviðs, sviðstjóra stjórnsýslusviðs og deildastjóra fræðslumála.

Hópnum var bent á heimasíðuna www.betrisudurnesjabaejar.is þar sem hægt að senda inn hugmyndir sem eru svo teknar fyrir af bæjarstjórn og þá fá þær líka kynningu um leið fyrir alla bæjarbúa.

Það er stór hluti í námi nemenda að ná ákveðnum hæfnimarkmiðum og náðu nemendur sex markmiðum í þessu skemmtilega verkefni.

  • Tekið þátt í að skoða og skilgreina stöðu umhverfismála á heimsvísu og rætt um markmið til umbóta.
  • Tekið eftir og rætt atriði í umhverfinu sínu, gert grein fyrir áhrifum þeirra á lífsgæði og náttúru, sýnt umhverfinu umhyggju og rökrætt eigin skoðun á því.
  • Skoðað og skráð atburði eða fyrirbæri sem snerta samspil manns og umhverfis, í framhaldi tekið virkan þátt í gagnrýnni umfjöllun um málið og gert tillögur um aðgerðir til bóta.
  • Sýnt fram á getu til að vinna að umbótum í eigin sveitarfélagi eða í frjálsum félagasamtökum
  • Greint stöðu mála í eigin umhverfi og aðdraganda þess, í framhaldi skipulagt þátttöku í aðgerðum sem fela í sér úrbætur.
  • Tekið þátt í og útskýrt reynslu sína og niðurstöðu af þátttöku í aðgerðum sem varða náttúru og samfélag.

Nemendur þakka gestum okkar fyrir góða heimsókn.