Grunnskólinn í Sandgerði

Sandgerðisskóli stendur við Skólastræti. Skólahúsið, Sund- og íþróttamiðstöð bæjarins eru sambyggð þannig að öll kennsla fer fram undir sama þaki. Skólinn hefur verið starfræktur á þessum stað allt frá árinu 1938.

En skólahald í Miðneshreppi má rekja mikið lengra aftur í tímann eða allt aftur til ársins 1884. Þá var kennt á tveimur stöðum, annars vegar á Nýlendu þar sem börn af suðurnesinu söfnuðust saman og hins vegar að Flankastöðum en þar var börnum sem áttu heima í Bæjarskershverfi og norðar, kennt.

Á báðum þessum stöðum voru reisuleg húsakynni. Kennslutíminn var fjórir mánuðir, tveir mánuðir á hvorum stað. Á þessum fyrstu árum veittu skólarnir kennslu í Nýjatestamentinu, reikningi og lestri.