Skólaslit Sandgerðisskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 4. júní s.l.
Skólaslitin voru tvískipt að þessu sinni, 1. – 7. bekkur kl. 10:00 og  8. – 10. bekkur kl. 11:00.

Nemendur í 4. bekk sem hafa stundað hljóðfæraval í vetur byrjuðu skólaslitin á því að spila öll saman fyrir gesti, einnig lék Maxwell Isaac nemandi í 7. bekk  á píanó á báðum skólaslitunum.

Skólaárið einkenndist af fjölbreyttum kennsluaðferðum, námsgleði og góðum námsárangri. Hólmfríður skólastjóri fór yfir í ræðu sinni um mikilvægi þess að nemendur væru virkir þátttakendur í námi sínu , mikilvægi þess að spyrja spurninga, vera forvitin og tileinka sér gagnrýna hugsun.

Hólmfríður og Bylgja aðstoðarskólastjóri veittu nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í verk og lesgreinum. Foreldrafélagið gaf verðlaun fyrir háttvísi og prúðmennsku og einnig veitti Kvenfélagið Hvöt sérstök verðlaun fyrir árangur í lestri. Sorpeyðingarstöðin Kalka gaf bókarverðlaun fyrir góðan árangur í náttúrufræði.

Við útskrift 10. bekkinga ávarpaði Ragnhildur Lovísa Guðmundsdóttir umsjónarkennari þeirra nemendur. Fyrir hönd útskriftarárgangsins töluðu þeir Ólafur Fannar Þórhallsson og Styrmir Þór Wíum Sveinsson. Að lokinni athöfn buðu foreldrar 10. bekkinga starfsfólki og nemendum í kaffisamsæti.

Við þökkum nemendum og foreldrum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Óskum ykkur ánægjulegs sumars og hlökkum til samstarfsins á komandi hausti.