Skólaslit Grunnskólans í Sandgerði fyrir skólaárið 2014-2015 fóru fram í tvennu lagi 4. og 5. júní. Að kveldi 4. júní fóru fram skólaslit 8. – 10. bekkjar og útskrift 10. bekkjar, árgangs 1999. Skólaslit annarra nemenda fóru fram að morgni 5. júní. Nemendur sem náð höfðu sérstaklega góðum árangri, skarað framúr og gert góða hluti fyrir sig og skólann voru verðlaunaðir og þeim veittar viðurkenningar. Fanney D. Halldórsdóttir skólastjóri ræddi um fjölbreytileikan undir regnboganum og vitnaði í Dóróteu nöfnu sína og vinni hennar úr Galdrakarlinum í Oz. Þannig tengdi hún mikilvægi þess að vera með hugann við efnið, sýna dug, vera í öruggu umhverfi og með hjartað á réttum stað við lífið í skólasamfélaginu og hvatti nemendur til þess að vera þannig ávalt besta útgáfan af sjálfum sér og gera sitt besta í hvívetna.

Við skólaslitin lét Helga Karlsdóttir, heimilisfræðikennari okkar Sandgerðinga, formlega af störfum. Helga hefur starfað sem kennari allt frá árinu 1971 og í Sandgerði frá 1986. Hún hefur látið mikið að sér kveða, gengt trúnaðarstörfum og unnið ötullega að bættu skólasamfélagi en fyrst og fremst hefur Helga kennt heimilisfræði og sýnt fram á mikilvægi heilbrigðra lífshátta. Heilsuefling og lýðheilsa í viðum skilningi hafa verið henni hugleikin. Hún nefndi í ræðu sinni, í tilefni dagsins, að hún vonaðist til þess að hún hefði sáð einhverjum fræjum sem síðan ættu eftir að fá að dafna og blómstra enn frekar. Það hefur hún sannarlega gert. Samkoman öll stóð upp og heiðraði Helgu, Fanney D. Halldórsdóttir, skólastjóri og Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar fóru hlýjum orðum um störf hennar og voru henni færðar gjafir frá Sandgerðisbæ, samstarfsfólki og skólanum og þar með nemendum fyrr og nú.

Kórinn söng og Tinna Guðrún spilaði á þverflautu

Helga mun áfram vera viðloðandi skólastarf en hún hefur boðið fram krafta sína sem svokölluð lestraramma við Grunnskólann í Sandgerði. Innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu skólasamfélagsins okkar í gegnum árin, elsku Helga.

 

 

 

 

 

 

Útskriftarhópur – árgangur “99