Grunnskólinn
í Sandgerði er í Comeniusar samstarfi við skóla frá: Wales, Þýskalandi, Spáni og Noregi. Þema verkefnisins er „learning from the past, looking into the future“. Starfið er víðtækt og hugað að öllu sem viðkemur námi barna. Einn hluti verkefnisins er að safna styrkjum fyrir WaterAid samtökin ( www.wateraid.org ) en það eru heimssamtök sem aðstoða þróunarlönd og ríki sem hafa orðið fyrir náttúruhamförum eða eru fórnalömb styrjalda til að fá gott aðgengi að hreinu vatni. Aðgangur að hreinu vatni eru mannréttindi, ekki forréttindi.

Nemendur
skólans ætla að biðja mömmur, pabba, afa, ömmur, frændur og frænkur að gefa sér klink eða smáaura til að setja í sameiginlegan bauk skólans. Því eins og við vitum gerir margt smátt eitt stórt. Nemendur samstarfsskóla okkar gera slíkt hið sama og í júní setjum við allt það fé sem safnast hefur á einn bankareikning. Upphæðin verður svo formlega afhent til Wateraid-samtakanna.
Þessu til viðbótar ætla nemendur í 6. FS að labba með 20 lítra af vatni 6 km mánudaginn 1. júní. En í ríkjum eins og Afríku og Asíu þarf fólk að ganga allt að 6 km vegalengd með 20 l af vatni daglega.  Það má nefna nokkrar staðreyndir um mikilvægi hreins vatns.  Sem dæmi nota Íslendingar 220 lítra af vatni á mann á dag á meðan í sumum þróunarlöndum notar manneskja að meðaltali 1,5 lítra, og þá er vatn til þvotta talið með. Bara við það að sturta niður úr klósettinu fara 15 lítrar af dýrmætu ferskvatni og tekur meðal baðkar um 100-200 lítra af vatni. 1,1 milljarður manna hafi ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni í veröldinni og daglega deyja sex þúsund börn úr sjúkdómum sem af því hljótast.
Þeir sem vilja leggja þessu verkefni hjálparhönd og styðja við gott aðgengi að vatni eins og við Íslendingar eigum, þá er hægt að leggja inná eftirfarandi reikning:
Grunnskólinn í Sandgerði
0147-15 – 210068
kt. 671088-5229
Með von um góð viðbrögð
Kveðja
Starfsfólk og nemendur Grunnskólans í Sandgerði